Júlíbyltingin árið 1830 var önnur stjórnmálabyltingFrakklands á eftir frönsku byltingunni árið 1789. Í byltingunni var nýjum konungi, Loðvík Filippusi, komið til valda og nýtt stjórnarfyrirkomulag stofnað undir nafninu „júlíríkið“. Byltingin gerðist á þremur dögum, 27., 28. og 29. júlí, sem kallaðir eru „les Trois Glorieuses“ eða „dýrlegu dagarnir þrír“ á frönsku.
Eftir langar og hatrammar deilur við ráðherra sína og þingmenn reyndi Karl 10. konungur að hrifsa til sín frekari völd með Saint-Cloud-tilskipuninni þann 25. júlí 1830. Viðbrögðin voru slík að æstur múgur breyttist fljótt í allsherjar byltingu lýðveldissinna. Parísarbúar reistu götuvígi og réðust að konungshernum í orrustu sem kostaði um 200 hermenn líf sitt og 800 uppreisnarmenn.[1] Konungurinn og fjölskylda hans flúðu París. Frjálslyndir en konunghollir þingmenn tóku málin í sínar hendur og tókst að viðhalda þingbundnu konungsveldi með því að breyta um konungsætt.
Orléans-ætt, ættkvísl Búrbónaættar, tók því við af gömlu konungsættinni og hertoginn af Orléans var lýstur „konungur Frakka“, en ekki konungur Frakklands eins og forverar sínir, undir nafninu Loðvík Filippus.