Jón Skúlason (11. nóvember 1736 – 10. mars 1789) var varalandfógeti á Íslandi frá 1763 til dauðadags, eða í 23 ár.
Jón var sonur Skúla Magnússonar landfógeta og Steinunnar Björnsdóttur konu hans. Hann var elstur barna þeirra og fæddur fyrir hjónaband. Hann útskrifaðist úr Hólaskóla 1753 og fór síðan til náms við Kaupmannahafnarháskóla og útskrifaðist þaðan með lögfræðipróf 1755. Hann varð síðan aðstoðarmaður föður síns og þann 22. júní 1763 var hann skipaður varalandfógeti og var heitið landfógetaembættinu þegar það losnaði. Hann fékk það hins vegar aldrei því hann dó á undan föður sínum, sem gegndi embættinu allt til 1793.
Jón bjó alla tíð hjá Skúla í Viðey og andaðist þar. Hann var nokkuð drykkfelldur og var samband þeirra feðga oft stormasamt. Kona Jóns var Ragnheiður Þórarinsdóttir (d. 29. desember 1819), dóttir Þórarins Jónssonar sýslumanns á Grund. Þau áttu aðeins einn son, Jón Jónsson Vidöe. Hann var um tvítugt og hafði lokið stúdentsprófi þegar faðir hans lést. Afi hans sendi hann til Reykjavíkur ásamt tveimur föngum sem hann hafði hjá sér í gæslu til að sækja veisluföng í erfidrykkjuna en á leiðinni til baka drukknuðu þeir allir á Viðeyjarsundi og er talið að fangarnir hafi verið ölvaðir og orðið ósáttir og því hafi bátnum hvolft. Sagt er að þegar Skúla gamla var sagt frá láti sonarsonarins hafi hann sagt: „Goldið hef ég nú landskuldina af Viðey.“
Heimildir