Hinrik ungi (28. febrúar1155 – 11. júní1183 var elstur þeirra fjögurra sona Hinriks 2. Englandskonungs og Elinóru af Akvitaníu sem upp komust og átti að erfa krúnuna. Hann var krýndur meðkonungur föður síns árið 1170 en lést á undan honum og er ekki talinn með í ensku konungaröðinni.
Hinrik var jafnan nefndur Hinrik ungi eða ungi konungurinn (enska: Henry the Young King) til aðgreiningar frá föður sínum. Hann er sagður hafa verið glæsimenni, glaðlyndur, háttprúður og gjafmildur en um leið hégómafullur, kærulaus, fyrirhyggjulaus og lítill stjórnandi. Hann hafði heldur engan sérstakan áhuga á daglegri stjórn ríkisins, öfugt við föður sinn og yngri bræður, en var hins vegar sá eini af fjölskyldunni sem naut vinsælda meðal almennings. Hann var íþróttamaður, hafði mikinn áhuga á burtreiðum og ferðaðist fram og aftur um Frakkland til að taka þátt í burtreiðastefnum.
2. nóvember1160, þegar Hinrik var fimm ára, var gengið frá trúlofun hans og Margrétar af Frakklandi, dóttur Loðvíks 7. og miðkonu hans, Konstönsu af Kastilíu. Hún var þá tveggja ára. Trúlofunin átti að tryggja sátt milli Frakklands og greifadæmisins Anjou, en það var eitt þeira léna sem Hinrik 2. réði yfir á meginlandinu, um ákveðnar jarðeignir og var samið um að þær yrðu heimanmundur Margrétar. Þau giftust svo tólf árum síðar, 27. ágúst1172. Þau eignuðust aðeins einn son sem fæddist fyrir tímann 1177 og dó fárra daga gamall.
Ári eftir brúðkaupið gerði Hinrik ungi uppreisn gegn föður sínum, líklega vegna þess að prinsinn var ósáttur við að faðir hans vildi ekki láta honum eftir neitt af ríkinu til að stjórna en djúpstæð óánægja ýmissa aðalsmanna með stjórn Hinriks virðist hafa ýtt undir. Ríkharður ljónshjarta, næstelsti sonurinn, tók einnig þátt í uppreisninni. Hinrik hélt þó velli og sendi Elinóru drottningu, sem hafði stutt syni sína, í stofufangelsi en sættist við synina. Ríkharður var sendur til Akvitaníu til að berja á aðalsmönnum sem höfðu stutt þá bræðurna í uppreisninni en Hinrik ungi sneri sér að burtreiðum á ný og fékk auknar fjárveitingar frá föður sínum til að sinna áhugamáli sínu.
Upp úr 1180 fór spennan milli Hinriks unga og Ríkharðs bróður hans vaxandi og 1183 réðust Hinrik og Geoffrey, þriðji bróðirinn, inn í Akvitaníu. Innrásin rann þó út í sandinn þegar Hinrik fékk blóðkreppusótt og dó 11. júní um sumarið. Þar með var Ríkharður orðinn ríkiserfingi.