Hergé

Hergé, dulnefni fyrir Georges Prosper Remi (fæddur 22. maí 1907 í Etterbeek, Brussel, Belgíu, lést 3. mars 1983) var belgískur myndasöguhöfundur. Hergé skapaði meðal annars teiknimyndaflokkinn um Tinna, Afreksverk Palla og Togga og Ævintýri Alla, Siggu og Simbós. Hann var þekktur fyrir einkennandi stíl sem var kallaður ligne claire eða „hrein lína“, miklar bakgrunnsrannsóknir í síðari verkum sínum og nákvæmni í myndrænni framsetningu.

Nafnið Hergé er komið af franska framburði „R.G.“ sem eru upphafsstafir fæðingar- og ættarnafns Hergé gagnstæðir (Georges Remi - R.G.).

Hann fæddist í bænum Etterbeek nærri Brussel. Tólf ára gerðist hann skáti og fyrstu teikningar hans birtust í fréttabréfum og tímaritum skátahreyfingarinnar í Belgíu. Um tvítugt fékk hann starf við íhaldssama kaþólska dagblaðið Le XXe Siècle („20. öldin“) sem var undir ritstjórn fasistans Norbert Wallez. Wallez kom á fót sérblaði fyrir börn, Le Petit Vingtième („litla tuttugasta“) sem kom út með dagblaðinu á hverjum fimmtudegi. Hergé varð ritstjóri blaðsins og aðalmyndhöfundur. Þar byrjaði hann að þróa sína eigin myndasögu og fyrsta Tinnasagan, Tinni í Sovétríkjunum, hóf ferill sinn í blaðinu í janúar 1929. Sögurnar um Tinna og Palla og Togga sem birtust í Le Petit Vingtième slógu í gegn í Belgíu. Fyrsta „alvarlega“ Tinnasagan, Blái lótusinn, kom þar út á árunum 1934-35. Í þeirri sögu lagði Hergé meiri áherslu á bakgrunnsrannsóknir og flóknari atburðarás. Þegar Þjóðverjar lögðu Belgíu undir sig í síðari heimsstyrjöld var Le XXe Siècle lokað. Hergé hélt áfram að teikna fyrir Le Soir en þegar bandamenn náðu Belgíu á sitt vald var því blaði lokað. Hann var sjálfur ásakaður um samvinnu með hernámsliði Þjóðverja og fékk ekki vinnu eftir stríð. Næstu ár endurteiknaði hann nokkrar af eldri sögunum, meðal annars með aðstoð Edgar P. Jacobs. Árið 1946 tók útgefandinn Raymond Leblanc hann upp á sína arma og fjármagnaði stofnun vikuritsins Tintin þar sem Ævintýri Tinna héldu áfram að birtast. Eftir taugaáfall árið 1950 stofnaði hann, ásamt nokkrum samstarfsmönnum, Studios Hergé. Þar unnu allt að 50 manns þegar mest var, þar á meðal þekktir myndasöguhöfundar á borð við Jacques Martin, Bob de Moor og Roger Leloup. Þar vann Hergé til dauðadags.

Hergé-safnið var opnað 2009 í Louvain-La-Neuve.

Tengt efni

  Þetta æviágrip er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.

Strategi Solo vs Squad di Free Fire: Cara Menang Mudah!