Hörður Sigurgestsson (fæddur 2. júní 1938, dáinn 22. apríl 2019) var íslenskur viðskiptafræðingur og forstjóri Eimskips í tuttugu og eitt ár eða frá 1979–2000. Hörður var einn áhrifamesti maður íslensks viðskiptalífs um árabil.
Ævi
Hörður Sigurgestsson var sonur hjónanna Sigurgests Guðjónssonar bifvélavirkja og Vigdísar Hansdóttur. Hörður lauk stúdentsprófi frá Verslunarskóla Íslands árið 1958 og viðskiptafræðiprófi frá Háskóla Íslands árið 1965. Hann lauk MBA-prófi árið 1968 frá Wharton School, University of Pennsylvania í Bandaríkjunum. Á árunum 1965–1966 var hann fulltrúi framkvæmdastjóra hjá Almenna bókafélaginu. Hörður hóf störf í fjármálaráðuneytinu, fjárlaga- og hagsýslustofnun árið 1968 og var þar til ársins 1974 er hann varð framkvæmdastjóri fjármálasviðs Flugleiða og gegndi því starfi þar til hann var ráðinn forstjóri Eimskipafélags Íslands árið 1979. Hann lét af starfi forstjóra árið 2000. Hann sat í stjórn Flugleiða 1984–2004, þar af sem stjórnarformaður 1991–2004. Hörður tók um skeið virkan þátt í starfi Sjálfstæðisflokksins, sat í stjórn SUS, í stjórn Varðar og í stjórn fulltrúaráðs sjálfstæðisfélaganna í Reykjavík. Þá var hann formaður Stúdentaráðs Háskóla Íslands frá 1960–1962. Hörður sat í mörgum stjórnum, nefndum og ráðum fyrir hið opinbera, einkafyrirtæki og félagasamtök. Nefna má setu í stjórnum Stjórnunarfélagsins, Verslunarráðsins, Vinnuveitendasambandsins og Sinfóníuhljómsveitarinnar, þar sem hann var stjórnarformaður um skeið. Hörður sat í háskólaráði Háskóla Íslands sem fulltrúi þjóðlífs skipaður af menntamálaráðherra 1999–2003 og var formaður stjórnar Landsbókasafns-Háskólabókasafns frá 2003–2008. Í nóvember 2008 var hann gerður að heiðursdoktor við Háskóla Íslands.[1][2]
Hörður var um árabil einn áhrifamesti einstaklingurinn í íslensku viðskiptalífi. Hann leiddi Eimskipafélagið í gegnum miklar breytingar og í hans forstjóratíð jókst starfsemi fyrirtækisins erlendis, gámavæðing flutninganna hófst, afhafnasvæði félagsins í Sundahöfn byggðist upp og margt fleira. Viðskiptaveldi tengt Eimskipafélaginu gekk gjarnan undir heitinu Kolkrabbinn og þótti það lýsandi fyrir veldið sem þótti teygja anga sína víða. Benedikt Jóhannesson stærðfræðingur og fyrrverandi formaður Viðreisnar nefnir Hörð sem upphafsmann nútímans í viðskiptalífinu[3] og Björn Bjarnason fyrrverandi alþingismaður og ráðherra telur „að um árabil hafi ekkert mikilvægt mál verið leitt til lykta í íslensku viðskiptalífi, án þess að Hörður kæmi að því beint eða óbeint.“[4]
Ítarefni
Tilvísanir
- ↑ Háskóli Íslands, Hörður Sigurgestsson heiðursdoktor 14. nóvember 2008, (skoðað 5. maí 2019)
- ↑ Andlát: Hörður Sigurgestsson, Morgunblaðið, 24. apríl 2019 (skoðað 5. maí 2019)
- ↑ Benedikt Jóhannesson, „Upphafsmaður nútímans í viðskiptalífinu“, 24. apríl 2019 (skoðað 5. maí 2019)
- ↑ Björn Bjarnason, „Hörður Sigurgestsson sjötugur“, 2. júní 2008 (skoðað 5. maí 2019)