Eiríkur snara var landnámsmaður í Strandasýslu. Hann nam land frá Ingólfsfirði til Ófæru, sunnanvert við miðja Veiðileysu. Reykjarfjörður og Trékyllisvík voru í landnámi hans og bjó hann í Trékyllisvík. Síðar gaf hann Önundi tréfæti hluta af landnámi sínu, Veiðileysu alla, Reykjarfjörð og Reykjanesið sunnanvert.
Kona Eiríks var Álöf, dóttir Ingólfs landnámsmanns í Ingólfsfirði. Sonur þeirra var Flosi. Hann bjó í Trékyllisvík þegar skip frá Noregi strandaði þar. Úr flakinu gerðu Norðmennirnir nýtt skip sem þeir kölluðu Trékylli. Flosi sigldi með þeim þegar þeir héldu til Noregs en varð afturreka í Öxarfjörð. „Þaðan af gerðist saga Böðmóðs gerpis og Grímólfs,“ segir í Landnámabók.