Móðir hans var Sigríður Benjamínsdóttir og faðir hans Finnbogi Kolbeinsson. Þeirra samband varði stutt og síðar gekk Sigríður að eiga Ástvald Þorkelsson og átti með honum sex börn.[1] Fyrstu ár ævi sinnar bjó Eiríkur í Straumi, beint á móti þar sem Álverið í Straumsvík stendur nú. Hafnarfjörður hefur þó ávallt talist heimabær Eiríks en þangað flutti hann ásamt fjölskyldu sinni þegar hann var fimm ára gamall og hefur búið þar síðan.[2] Listaáhugi Eiríks kom fljótt í ljós og tók hann ungur að aldri með sér stílabók hvert sem hann fór til að krota hugmyndir sínar í.[3] Í raun mætti segja að Eiríkur hafi verið heppinn því móðir hans ýtti undir listaáhuga hans frekar en að draga úr honum, þrátt fyrir misjafnar skoðanir annarra á því.[4] Eftir að Eiríkur flutti með fjölskyldunni inn í hjarta Hafnarfjarðar var hrjóstugt landslag Straumsvíkur alltaf í minni hans og tekur hann yfirleitt hrjóstugt landslag og drungalegt veður fram yfir sólskin og gróðursæld í málverkum sínum.[5]
Nám
Eiríkur er af venjulegri verkamannastétt og komst ekki í gagnfræðiskóla. Fjölskyldan hafði ekki efni á að missa hann sem fyrirvinnu. Þó kom Guðjón Guðjónsson því að að Eiríkur yrði kostaður í kvöldskóla Finns Jónssonar og Jóhanns Briem. Þar stundaði Eiríkur nám við myndlist veturinn 1939-1940. Þessi reynsla var Eiríki dýrmæt en þó varð bið á að hann héldi áfram með nám.[6]
Næstu ár vann Eiríkur mikið en loks kom að því að hann hóf nám við Myndlista- og handíðaskóli Íslands en þar stundaði hann nám á árunum 1946 – 1948. Þá var Luðvig Guðmundsson skólastjóri skólans en aðal kennarar myndlistadeildar voru þeir Kurt Zier og Jóhann Briem.[7] Sumarið 1948 var Eiríkur komin með talsvert magn mynda í kringum sig og hélt því sína fyrstu sýningu í Sjálfsstæðishúsinu í Hafnarfirði. Þar seldi Eiríkur 60 myndir og þrátt fyrir að verðið væri ekki hátt þá nægði það samt sem áður til uppihalds í Kaupmannahöfn í tvo vetur. Efniviðurinn í sýningunni var olía, vatnslitir og krít og myndefnið aðallega hús, skip við bryggju og blóm.[8]
Haustið 1948 hóf Eiríkur nám við Rostrup Böyesens í Kaupmannahöfn ásamt vini sínum Benedikt Gunnarssyni en lauk því námi vorið 1950.[9] Haustið 1950 fóru hann og Benedikt til Parísar en komu aftur heim í byrjun sumars 1951.[10] Eftir dvölina í París ákváðu Eiríkur og Benedikt að fara í ferðalag, héldu þeir suður til Spánar og alla leið til Norður-Afríku. Á íslenskan mælikvarða þótti þetta ferðalag talsvert merkilegt og var mikið úr því gert.[11] Eftir dvölina úti hóf Eiríkur að mála abstraktmyndir. Þessi verk voru byggð á formum og flötum í hreinum litum. Síðan breyttist stíllinn og formin urðu frjálslegri.[12]
Upp úr 1960 voru málverk Eiríks yfirleitt stór og kraftmikil, máluð með breiðum penslum eða spöðum. Þannig túlkaði hann þau áhrif sem náttúran hafði á hann. Eiríkur hefur tekið listina um víðan völl og hefur Listferill hans verið fjölbreyttur. Eiríkur hefur gert tilraunir með abstraktlistir, meðal annars slettumyndir. Á áttunda áratugnum málaði hann myndir af fólki og landslagi af mikilli nákvæmni. Þar kom vel í ljós hvað hann er frábær teiknari.[13]