Eiríkur Hróaldsson var landnámsmaður í innsveitum Skagafjarðar. Hann nam land neðan frá Gljúfurá og Svartá, Svartárdal, Vesturdal og Reykjatungu og samkvæmt Landnámabók einnig Austurdal en það stangast þó á við það sem segir um landnám Önundar þar. Landnámið er mjög stórt og fengu aðrir landnámsmenn síðar hluta þess. Í Landnámabók segir að hann hafi numið Goðdali alla. Nafnið Goðdalir er nú eingöngu bæjarnafn en virðist í Landnámu notað um alla dalina þrjá.
Eiríkur bjó á Hofi í Goðdölum (nú Hofi í Vesturdal). Hann sendi þræl sinn sem Rönguður hét suður á fjöll að kanna landið. Rönguður fór suður með Blöndukvíslum og upp á Kjöl og fann þar mannsspor sem lágu sunnan að. Þá áttaði hann sig á að þarna væri hægt að komast milli landshluta. Má því segja að Rönguður hafi fundið Kjalveg fyrstur manna.