Egill Helgason

Egill Helgason árið 2012.

Egill Helgason (f. 9. nóvember 1959) er íslenskur blaðamaður, spjallþáttastjórnandi og umsjónarmaður sjónvarpsþáttanna Silfur Egils og Kiljunnar á RÚV.

Egill hóf fjölmiðlaferill sinn með skrifum í Alþýðublaðinu. Þáttur hans, Silfur Egils, hóf göngu sína á Skjá Einum 1999 fyrir kosningarnar það ár. Egill keypti höfundaréttinn að vörumerkinu „Silfur Egils“ í maí 2005 og færði þáttinn yfir til Stöð 2. Þátturinn hóf svo göngu sína RÚV. Hann hætti árið 2013 en hófst aftur árið 2017 undir nafninu Silfrið. Egill starfar nú hjá RÚV og stýrir með bókmenntaþættinum Kiljunni ásamt Silfrinu.

Æviágrip

Egill hóf fjölmiðlaferil sinn sem blaðamaður í fréttablöðum á borð við Alþýðublaðið, Tímann og Helgarpóstinn. Hann nam fjölmiðlafræði í alþjóðaskólanum Journalistes en Europe í París á árunum 1986-1987. Egill hóf starf í sjónvarpi árið 1988, fyrst í sjónvarpsþáttunum Mannlega þættinum, sem fjölluðu um ýmsa þætti íslensks þjóðernis. Hann varð síðar fréttamaður hjá Ríkisútvarpinu og síðar hjá Stöð 2.

Árið 1999 byrjaði Egill pólitísku spjallþættina Silfur Egils hjá Skjá einum, sem þá var nýstofnaður.[1] Þættirnir nutu fljótt vinsælda og áhrifa. Í þeim tók Egill viðtöl við gesti bæði á íslensku og ensku, og stundum á öðrum tungumálum.

Árið 2007 voru þættirnir færðir yfir á Stöð 2 vegna deilna Egils við eigendur Skjás eins.[2] Egill færði sig aftur með þættina síðar sama ár, í þetta sinn til RÚV.[3] Í bankahruninu á Íslandi urðu þættirnir vettvangur hatrammrar umræðu sem þá var háð í íslensku samfélagi. Egill bauð jafnframt erlendum gestum á borð við Nóbelsverðlaunahagfræðingana Paul Krugman og Joseph Stiglitz og samfélagsfræðingana Noam Chomsky og Slavoj Žižek, til viðtals í þáttunum. Meðal annarra þáttargesta á þessum tíma má nefna Julian Assange, Ayaan Hirsi Ali og Carl Bildt.

Egill hóf einnig bókmenntaþættina Kiljuna árið 2007 hjá RÚV. Þættirnir eru vikulegir spjallþættir með gagnrýni og viðtölum við höfunda. Meðal höfunda sem hafa birst í þáttunum má nefna Michel Houellebecq, Dave Eggers, David Mitchell, Ngugi wa Thiong'o, Nawal El Saadawi, Alice Walker og Dan Brown.

Egill hefur unnið að heimildarþáttum um sagnfræðileg málefni. Vesturfarar var tíu þátta þáttaröð sem fjallaði um flutning Íslendinga til Kanada og Bandaríkjanna frá 1873 til 1914.[4] Í fimm hluta þáttaröðinni Steinsteypuöldinni árið 2016 fjallaði Egill um endurbyggingu Reykjavíkur eftir brunann mikla árið 1915.[5] Í Kaupmannahöfn, höfuðborg Íslands árið 2017 var fjallað um samband Íslands við Kaupmannahöfn, sem var um aldabil hin eiginlega höfuðborg landsins.[6] Egill vinnur nú að þáttaröð undir titlinum Siglufjörður, saga bæjar. Í þeim þáttum verður fjallað um það hvernig ríkuleg útgerð á síld varð til í Siglufirði árið 1903 en lognaðist út af þegar síldarstofninn hvarf árið 1967.

Egill hefur unnið til fjölda Edduverðlauna.[7]

Egill hefur haldið uppi bloggsíðum frá febrúar árið 2000. Hann hefur meðal annars skrifað á Vísi, Eyjuna og nú síðast á DV/Eyjunni. Hann skrifar um málefni á borð við stjórnmál, alþjóðamál, bókmenntir, sagnfræði og tónlist. Egill hefur mikið skrifað um Grikkland og er þekktur Grikklandsvinur sem heimsækir Grikkland á hverju ári.[8]

Tilvísanir

  1. „Gullöldin endurvakin“. Dagblaðið Vísir. 19. janúar 2009. Sótt 23. júní 2018.
  2. „Egill á Stöð 2“. Fréttablaðið. 2. október 2003. Sótt 23. júní 2018.
  3. „Egill segist á leið á RÚV“. Vísir. 7. júní 2007. Sótt 23. júní 2018.
  4. „Vesturfarar Review“ (enska). 29. október 2014. Sótt 23. júní 2018.
  5. „Did Nixon Save Historical Reykjavík Houses?“. Iceland Review. 7. nóvember 2016. Sótt 23. júní 2018.
  6. „Kaupmannahöfn, höfuðborg Íslands“. RÚV. Sótt 23. júní 2018.
  7. „Egill fékk eddur“. Dagblaðið Vísir. 12. nóvember 2007. Sótt 23. júní 2018.
  8. „Grikkland að hætti Egils“. turisti.is. Sótt 23. júní 2018.

Tenglar

  Þetta æviágrip er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.

Strategi Solo vs Squad di Free Fire: Cara Menang Mudah!