Drekabátahátíðin

Drekabátahátíðin (Duan Wu Jie; 端午節) er kínversk hátíð sem haldin er á fimmta degi fimmta mánaðar í kínverska tungldagatalinu. Hátíðin fellur því oft á mismunandi dag samkvæmt gregoríanska dagatalinu. Árið 2021 er hátíðin haldin 14. júní. Á kínversku nefnist hátíðin duan wu sem mætti útleggja sem „hestur í upphafsfasa“, þ.e. hinn fyrsti „dagur hestsins“ sem er skírskotun í kínverska dagatalið. Wu 午 hefur merkinguna „hádegi“ en í kínversku tímatali skírskotar það til hestamerkisins í kínverskri stjörnuspeki. Í stað táknsins wu 午 er stundum notast við annað tákn með sama framburði, wu 五, sem merkir „fimm“, enda fer hátíðin fram á á fimmta degi fimmta mánaðar. Dagurinn er haldinn hátíðlegur á meginlandi Kína, Hong Kong, Makaó og Taívan sem og meðal kínverskra minnihlutahópa víða um heim.

Trú

Samkvæmt hefðbundinni kínverskri trú er hinn fimmti tunglmánuður talinn vera óheillavænlegur mánuður. Því hefur verið trúað að náttúruhamfarir og sjúkdómar væru algengir í þeim mánuði. Til að forðast ógæfu tók fólk upp á að setja ýmis konar blóm, m.a. kalmusrót og hvítlauk, fyrir ofan dyrnar á þessum degi. Þar sem lögun kalmusrótarinnar svipaði til sverðs og hvítlaukurinn hafði svo sterka lykt var talið að slíkt gæti forðað burtu illum öndum. Einnig, á sumum svæðum í Kína, flétta kínverskir foreldrar silkiþræði úr 5 mismunandi litum í armband sem þau setja á úlnlið barna sinna á þessum degi. Því er einnig trúað að það haldi illum öndum og sjúkdómum frá.

Ástundun og umstang

Það vinsælasta sem Kínverjar gera á drekabátahátíðinni er að búa til og borða zongzi (sjá neðar), drekka vín og keppa á drekabátum.

Drekabátakeppnin

Uppruni drekabátakeppninnar er smá óljós, þó að flestir telja hana vera til minningar um ráðherrann og skáldið Qu Yuan sem var uppi fyrir u.þ.b. 2500 árum síðan. Goðsagan segir að Qu Yuan, sem var ráðherra í ríkinu Chu, var gerður útlægur af kónginum í ríkinu fyrir að mótmæla samstarfi við hið valdamikla ríki Qin. Í útlegðinni sinni skrifaði Yuan mikið af ljóðum. 28 árum síðar tók Qin ríkið yfir borgina Ying, höfuðborg Chu og vegna mikilla vonbrigða drekkti Qu Yuan sér í Miluo ánni. Almúginn reyndi að bjarga honum á bátum en án árangurs. Til að minnast Qu Yuan er drekabátahátíðin haldin árlega á þeim degi sem Yuan á að hafa drukknað, samkvæmt goðsögunni. Þá á drekabátakeppnin að líkja eftir því þegar almúginn reyndi að bjarga Qu Yuan frá drukknun. Þá kastar fólk líka hrísgrjónum út í vatnið til að gefa fiskunum svo þeir borði ekki líkið af Qu Yuan. Táknmynd hrísgrjónadreifingarinnar er nú fengin með Zongzi hrísgrjónabollunum.

Zongzi

Eitt af aðalatriðum hátíðarinnar er að útbúa og borða svokölluð zongzi með fjölskyldu og vinum. Zongzi er í öllum tilvikum sterkjurík hrísgrjón sem vafin eru með bananalaufum í pýramídalögun. Fyllingin í Zongzi er mismunandi eftir svæðum, t.d. eru sæt zongzi vinsæl í Norðurhluta Kína en í suðrinu eru þau matarmeiri og innihalda kjöt og egg. Aðalástæða þess að Kínverjar borða zongzi er til að minnast Qu Yuan ráðherra en einnig minnir lögunin á gull- eða silfurbúta sem notaðir voru sem gjaldmiðlar fyrr á öldum.

Annað

Ýmislegt fleira er gert á þessum hátíðardegi. Langir göngutúrar, bera ilmandi læknispoka og hengja hina ýmsu verndarhluti upp gegn illum öndum og sjúkdómum. Síðan er einnig keppt að því að láta egg standa upprétt á hádegi, þ.e. kl. 12. En ef einhverjum tekst það, þá mun sá njóta mikillar gæfu á árinu sem fer í hönd.

Heimildir

Strategi Solo vs Squad di Free Fire: Cara Menang Mudah!