Djúpidalur er bær í Blönduhlíð í Skagafirði og stendur í mynni Dalsdals, sem gengur inn til austurs sunnan við fjallið Glóðafeyki. Dalurinn greinist um Tungufjall (eitt af þremur með því nafni í Blönduhlíðarfjöllum) og ganga álmurnar langt inn í fjallgarðinn. Um dalinn fellur Djúpadalsá eða Dalsá og er í djúpu og allhrikalegu gili í dalsmynninu. Hún hefur myndað víðáttumiklar eyrar á láglendinu sem eru nú að gróa upp. Þar á eyrunum var Haugsnesbardagi háður 1246. Kirkja eða bænhús var í Djúpadal fyrr á öldum en lagðist af snemma á 18. öld.
Mera-Eiríkur Bjarnason, sem var bóndi í Djúpadal frá 1733, var frægur fyrir hrossaeign sína og átti í útistöðum við Skúla Magnússon sýslumann á Stóru-Ökrum, sem reyndi að sanna á hann tíundarsvik en tókst ekki. Frá Mera-Eiríki er Djúpadalsætt og búa afkomendur hans enn í Djúpadal.
Heimildir
Hjalti Pálsson (ritstj.): Byggðasaga Skagafjarðar IV. bindi. Akrahreppur. Sögufélag Skagfirðinga, 2007. ISBN 978-9979-861-15-7}
Hallgrímur Jónasson: Árbók Ferðafélags Íslands. Skagafjörður. Ferðafélag Íslands, 1946.