Auður djúpúðga Ívarsdóttir – (Auður hin djúpúðga eða djúpauðga, var uppi um 700) – var dóttir Ívars víðfaðma konungs í Svíþjóð, Danmörku og víðar á Norðurlöndum. Hún var móðir Haralds hilditannar, sem sagt er frá í ritunum Sögubroti af fornkonungum, Hversu Noregur byggðist og Hyndluljóðum. Ekki má rugla Auði djúpúðgu Ívarsdóttur við Auði djúpúðgu Ketilsdóttur sem var landnámskona á Íslandi.
Ívar víðfaðmi faðir hennar gifti hana Hræreki konungi af Sjálandi, en vissi þó að hún vildi heldur eiga Helga bróður hans. Þau Auður og Hrærekur eignuðust soninn Harald hilditönn. Ívar víðfaðmi sagði Hræreki að Auður héldi fram hjá honum með Helga, og varð það til þess að Hrærekur drap Helga bróður sinn. Ívar lét þá drepa Hrærek og lagði undir sig Sjáland.
Auður flýði þá til Garðaríkis með son sinn Harald hilditönn, giftist Ráðbarði konungi þar og eignuðust þau soninn Randver. Ívar faðir hennar varð afar reiður yfir því að Auður hafði gift sig án hans leyfis. Þrátt fyrir háan aldur lagði hann af stað til Garðaríkis til að sækja hana, en dó á leiðinni. Haraldur hilditönn fór þá til Svíþjóðar til að taka við konungdæminu eftir afa sinn og naut til þess stuðnings Ráðbarðs stjúpföður síns.
Heimild
Tengt efni