Auðunn Lúthersson (f. 9. febrúar 1993), þekktur undir sviðsnafninu Auður, er íslenskur tónlistarmaður.
Auður spilaði á dönsku tónlistarhátíðinni Hróarskeldu árið 2019.[1] Á Íslensku tónlistarverðlaununum árið 2020 hlaut Auður þrenn verðlaun; popplag ársins („Enginn eins og þú“), söngvari ársins og flytjandi ársins.[2]
Æviágrip
Árið 2011 var Auðunn í sigurliði Menntaskólans í Reykjavík í rökræðukeppninni Morfís þ.s. umræðuefnið var frjálshyggja.[3]
Árið 2014 var leikverkið Heili hjarta typpi eftir Auðunn og frænda hans Ásgrím Gunnarsson[4] frumsýnt í Gaflaraleikhúsinu í Hafnarfirði[5].
Auður samdi við höfundarrétarfyrirtækið IMAGEM MUSIC árið 2016.[6]
Árið 2016 var Auður fyrsti Íslendingurinn til þess að vera valinn í hina margverðlaunuðu akademíu Red Bull Music Academy.[7]
Árið 2018 skrifaði Auður undir plötusamning við Sony Music í Danmörku.[8]
Auður samdi tónlistina fyrir leikverkið Kópavogskrónika uppúr samnefndri bók Kamillu Einarsdóttur og var frumsýnt árið 2020 í Þjóðleikhúsinu.[9]
Einkalíf
Auður er sonur Lúthers Sigurðssonar meltingarlæknis og Ingibjargar Ragnarsdóttur hjúkrunarfræðings, hann er yngri bróðir sundkonunnar Hrafnhildar Lúthersdóttur.[10] Auður býr nú í Los Angeles þar sem hann starfar við framleiðslu á tónlist.[11]