Afríkukeppni karla í knattspyrnu 1963 fór fram í Gana dagana 24. nóvember til 1. desember, með þátttöku sex liða. Það var fjórða Afríkukeppnin og lauk með sigri heimamanna í fyrsta sinn.
Forkeppni
Gana og Eþíópía komust beint í úrslitakeppnina sem gestgjafar og ríkjandi meistarar. Úganda dró sig úr keppni á síðustu stundu og börðust því sjö þjóðir um fjögur síðustu sætin í úrslitum. Gínea sló Nígeríu úr leik í tveggja leikja einvígi en var síðar vikið úr keppni fyrir að tryggja ekki hlutlausa dómara í viðureign liðanna í Gíneu.