4 er fjórða breiðskífa bandarísku söngkonunnar Beyoncé. Platan var gefin út 24. júní 2011 af Parkwood Entertainment og Columbia Records. Eftir hlé á ferli sínum til að kveikja sköpunargáfu sína á ný, fékk Beyoncé innblástur til að búa til plötu með grunn í hefðbundnum ryþmablús, sem var ólík popptónlist samtímans. Samstarf hennar við lagahöfundana og upptökustjórana The-Dream, Tricky Stewart og Shea Taylor leiddi af sér mildari tóna, fjölbreyttan söngstíl og áhrif frá fönki, hipphoppi og sálartónlist.
Eftir að Beyoncé sleit faglegum tengslum við föður og umboðsmann sinn, Mathew Knowles, gat hún breytt tónlistarstefnunni burt frá fyrri verkum sínum og í átt að innilegri og persónulegri plötu. Textasmíð 4 leggur áherslu á einkæri, valdeflingu kvenna og sjálfsígrundun, sem er afleiðing af því að Beyoncé íhugaði þroskaðri boðskap til að sýna fram á listrænan trúverðugleika. Í maí 2011 sendi Beyoncé inn 72 lög til Columbia Records til athugunar og 12 þeirra voru gefin út á hefðbundnu útgáfu plötunnar.
4 var kynnt um mitt ár 2011 með flutningi í sjónvarpi og á tónlistarhátíðum, en hún var aðalflytjandi á Glastonbury-hátíðinni. Platan fékk almennt jákvæða dóma frá tónlistargagnrýnendum og nokkur tónlistartímarit settu plötuna á lista sína yfir bestu plötur árins. 4 var fjórða plata hennar í röð til að fara beint á toppinn á bandaríska Billboard 200 vinsældarlistanum og hún komst einnig í fyrsta sæti í Brasilíu, Írlandi, Suður-Kóreu, Spáni, Sviss og Bretlandi. Af plötunni voru smáskífurnar „Run the World (Girls)“, „Best Thing I Never Had“, „Party“, „Love On Top“ og „Countdown“ gefnar út á alþjóðavísu. Á 55. Grammy-verðlaunahátíðinni vann „Love On Top“ verðlaun fyrir Best Traditional R&B Performance. Frá og með nóvember 2016 hefur 4 selst í 5 milljónum eintaka um allan heim.