Þjóðleikhúskjallarinn er skemmtistaður í kjallara Þjóðleikhússins við Hverfisgötu í Reykjavík. Kjallarinn var fyrst opnaður fyrir kaffisölu á sýningarkvöldum á frumsýningu óperunnar Rigoletto 3. júní árið 1951. Fljótlega varð staðurinn vinsæll fyrir alls kyns sýningar, uppákomur, fundi, ráðstefnur og mannamót. Frá því skömmu eftir 1970 fram á miðjan 10. áratug 20. aldar var þar rekinn vinsæll dans- og tónleikastaður.
Búsáhaldabyltingin náði hápunkti sínum með mótmælasamkomu fyrir utan Þjóðleikhúskjallarann kvöldið 22. janúar 2009 þegar Samfylkingarfélagið í Reykjavík hélt þar fund. Á fundinum var samþykkt ályktun um að flokkurinn ætti að slíta stjórnarsamstarfi við Sjálfstæðisflokkinn. Fjórum dögum síðar ákváðu Ingibjörg Sólrún Gísladóttir og Geir H. Haarde að slíta stjórnarsamstarfinu.