Þangdoppa

Þangdoppa
Littorina obtusata
Littorina obtusata
Vísindaleg flokkun
Ríki: Animalia
Fylking: Lindýr (Molluska)
Flokkur: Snigill (Gastropoda)
Yfirætt: Littorinoidea
Ætt: Fjörudoppuætt (Littorinidae)
Ættkvísl: Littorina
Tegund:
L. obtusata

Tvínefni
Littorina obtusata
(Linnaeus, 1758)

Þangdoppa (fræðiheiti: Littorina obtusata) er sæsnigill af fjörudoppuætt.

Útbreiðsla

Þangdoppu má finna víðast þar sem þang vex við strendur Norður-Atlantshafs. Útbreidd í Evrópu, frá Noregi, Eystrasalti og Norðursjó, til suðurstrandar Spánar. Á austurströnd Norður-Ameríku lifir hún við strendur Nýfundnalands og allt suður til New Jersey í Bandaríkjunum. Við Ísland er Þangdoppa mjög algengur sæsnigill við suður-og vesturstöndina, eins hér og þar við norðvestur-og norðurland en sjaldgæfari við austurland.

Þangdoppa lifir á 0 til 6 metra dýpi, þó hefur stöku dýr fundist allt niður á 110 metra dýpi. Þangdoppa heldur sig að mestu leiti í miðri fjörunni eða neðst í henni. Í hnullunga og þangfjörum og þar sem þang er mikið og er aðallega á klóþangi, bóluþangi og sagþangi.

Skelin (kuðungurinn)

Þangdoppa finnst í mörgum litbrigðum. Þessir kuðungar voru tíndir í Fossvoginum en þar í fjörunni má finna mikið af þeim.

Þangdoppa verður stærst um 14,8 mm á breidd og 12,5 mm á hæð. Kuðungurinn er mjög traustur, einlitur, en litaafbrigði mörg, ólífugrænn, skærgulur, rauður, appelsínugulur, grágrænn, jafnvel röndóttur, þótt oftast sé hann dökkgrár eða brúnn. Algengast er að í sólríkum fjörum sé kuðungurinn ljósari á lit en dekkri í þeim skuggsælli.

Hyrnan á kuðungnum er afar stutt og ekki strýtumynduð. Vindingar 5 til 6, kúptir og er grunnvindingurinn mjög stór eða oftast um 90% af hæð kuðungsins og munnurinn dropalaga og mjög víður og er skelin greinilega þykkari við munnopið en annars staðar. Lokan er hringlaga og brún á lit. Efri vindingar kuðungsins ná lítið eða ekkert upp fyrir neðsta vindinginn. Yfirborðið slétt með nær engum snigilrákum en kuðungurinn getur þó verið með dálitlum afbrigðum í lögun.

Almennt

Þangdoppa lifir á örsmáum þörungum sem eru á þangi, sem hún skrapar af með skráptungu sem er alsett hörðum tönnum. Sjaldnast nær hún þó að éta þangið sjálft nema mjög ungar plöntur.

Hún verpir eggjum sem hún kemur fyrir í litlum gagnsæjum slímpúðum sem hún festir við þangið. Eggin klekjast út á fjórum til fimm vikum og þegar ungarnir skríða úr eggjunum eru þeir eins í útliti og foreldrarnir, aðeins minni.

Klettadoppa sem einnig lifir í fjörum, getur líkst þangdoppu fljótt á litið og þeim því stundum ruglað saman. Hún þekkist þó frá þangdoppunni á því að vindingarnir enda í trjónu. Klettadoppan lifir ofar í fjörunni en þangdoppan, oftast ofan við þangið.[1]

Þangdoppa, sem og klettadoppa, eru mikilvæg fæða margra strandfugla eins og Stelks, Tildru og Sendlings.[2]

Tilvísanir

  1. „Fjaran og hafið“. Hafransóknarstofnun og Námsgagnastofnun. Sótt 3. janúar 2012.
  2. „Vaðfuglar“. Náttúrufræðistofa Kópavogs. Afrit af upprunalegu geymt þann 7. mars 2016. Sótt 3. janúar 2012.

Heimildir

  • Ingimar Óskarsson (1962). Skeldýrafána Íslands II, sæsniglar með skel.

Strategi Solo vs Squad di Free Fire: Cara Menang Mudah!