Ódáðahraun er víðáttumikið hraunflæmi í Suður-Þingeyjarsýslu, norðan Vatnajökuls, milli Skjálfandafljóts og Jökulsár á Fjöllum. Norðurmörkin eru skilgreind á mismunandi hátt. Sumir vilja draga þau frá austri til vesturs sunnan við Bláfjall og Sellandafjall, aðrir telja að það nái norður undir Mývatnssveit og að Hringveginum um Mývatnsöræfi, enn aðrir vilja teygja það allt norður að Þeistareykjum. Ódáðahraun er stærsti samfelldi hraunfláki Íslands, um 4400 km² (ef miðað er við fyrst nefndu skilgreininguna). Það er samsett úr fjöldamörgum einstökum hraunum, bæði dyngjuhraunum og hraunum frá sprungum og gígaröðum. Elstu hraunin eru 10-12 þúsund ára en þau yngstu eru frá eldgosinu í Holuhrauni 2014-15. Upp úr hraunaflákum Ódáðahrauns rísa fjöll og fjallaklasar svo sem Herðubreið, Upptyppingar og Dyngjufjöll.
Ekki er vitað hvenær svæðið fékk þetta sitt nafn en það kemur fyrst fyrir í rituðum heimildum í Undur Íslands sem Gísli biskup Oddsson skrifaði á 17. öld. Nafnið er augljóslega tengt útilegumannatrú enda töldu menn á fyrri öldum að í hrauninu leyndust fjölbyggðir og frjósamir útilegumannadalir.