Ísabella af Hainaut

Ísabella drottning.

Ísabella af Hainaut (5. apríl 117015. mars 1190) var greifadóttir frá Hainaut og drottning Frakklands frá 1180 til dauðadags, fyrsta kona Filippusar 2. Frakkakonungs. Hún dó af barnsförum tæplega tvítug að aldri.

Ísabella var dóttir Baldvins 5. greifa af Hainaut og Margrétar af Flæmingjalandi. Þann 28. apríl 1180, þegar hún var nýorðin tíu ára, giftist hún hinum tæplega fimmtán ára Filippusi, einkasyni og ríkisarfa Loðvíks 7. Frakkakonungs. Hann hafði verið krýndur meðkonungur föður síns haustið áður og var Ísabella krýnd drottning mánuði eftir brúðkaupið. Hún færði manni sínum greifadæmið Artois sem heimanmund.

Tengdamóðir Ísabellu, Adela ekkjudrottning, og bræður hennar voru óánægð með valið á brúðinni en það var móðurbróðir hennar, Filippus greifi af Flæmingjalandi, sem hafði samið um hjónabandið við Loðvík konung. Filippus konungur taldi að héraðið Vermandois væri hluti af heimanmundi Ísabellu en það vildi Filippus greifi ekki fallast á. Þeir fóru í stríð 1181 og stóð það í nokkur ár. Árið 1184 reyndi Filippus að segja skilið við Ísabellu, bæði vegna þess að faðir hennar studdi mág sinn en ekki tengdasoninn og ekki síður vegna þess að hin fjórtán ára drottning hafði enn ekki alið honum erfingja. Róbert af Dreux, föðurbróðir konungs, gat þó talað um fyrir honum og þann 5. september 1187 ól Ísabella son, Loðvík, síðar konung.

Hún varð aftur þunguð sumarið 1189 og var meðgangan mjög erfið. Þann 14. mars 1190 ól hún tvíbura sem lifðu aðeins fáa daga. Sjálf lést hún daginn eftir.

Heimild

Strategi Solo vs Squad di Free Fire: Cara Menang Mudah!