Ísabella Bruce (um 1281 – 1358) var skosk jarlsdóttir og drottning Noregs frá 1293 til 1299. Eftir fráfall Eiríks manns síns bjó hún svo í nær sextíu ár sem ekkjudrottning í Noregi og dó í Björgvin tæplega áttræð að aldri.
Ísabella var dóttir Róberts Bruce, jarls af Carrick (d. 1308) og Marjorie konu hans. Bróðir hennar, Róbert, var konungur Skotlands frá 1306. Ísabella kom til Noregs með föður sinum 1293 til að giftast Eiríki, sem þá var 25 ára og hafði verið ekkjumaður í tíu ár. Fyrri kona hans, Margrét, var einnig skosk og einkabarn þeirra, Margrét Skotadrottning, var þá látin. Ísabella og Eiríkur eignuðust líka eina dóttur, Ingibjörgu, sem fæddist 1297.
Eiríkur dó 1299 en Ingibjörg litla erfði ekki ríkið, heldur Hákon föðurbróðir hennar, sem var framar í erfðaröðinni samkvæmt norskum lögum. Ísabella sneri ekki heim til Skotlands, hvorki þegar hún varð ekkja né þegar Róbert bróðir hennar varð konungur, enda var lífið mun friðvænlegra í Noregi en í Skotlandi, þar sem innanlandsófriður geisaði auk stöðugra átaka við Englendinga; þrír af bræðrum Ísabellu voru hengdir á árunum 1306-1307 og tvær systur hennar, drottningin mágkona hennar og dóttir Róberts bróður hennar voru í haldi í Englandi 1306-1314 og sættu illri meðferð.
Ísabella kaus fremur að búa sem ekkja í Björgvin og virðist aldrei hafa heimsótt ættland sitt eftir að hún kom fyrst til Noregs en hún hafði þó bréfaskipti við systur sína og kann að hafa lagt hönd á plóg þegar friður var saminn milli Orkneyinga, Hjaltlendinga og Skota 1312. Annars virðist hún hafa látið lítið fyrir sér fara. Hún styrkti löngum kirkjurnar og biskupsstólinn í Björgvin rausnarlega.
Talið er að Ísabella hafi ráðið því að Ingibjörg dóttir hennar, þá þriggja ára, var föstnuð Jóni Magnússyni Orkneyjajarli árið 1300 en ekkert varð af brúðkaupi því jarlinn dó árið 1311. Þá samdi Ísabella um giftingu dóttur sinnar og Valdimars Magnússonar hertoga, yngsta bróður Birgis Magnússonar Svíakonungs, og giftust þau 1312. Samtímis giftist Eiríkur bróðir Valdimars Ingibjörgu dóttur Hákonar háleggs. Sex árum síðar dóu hertogarnir báðir í dýflissu þar sem Birgir bróðir þeirra hafði sett þá. Ingibjörg Eiríksdóttir giftist aldrei aftur, fremur en móðir hennar hafði gert, en bjó áfram í Svíþjóð. Í sænsku skjali frá 1357 kemur fram að Ísabella ekkjudrottning eigi að taka arf eftir dóttur sína og virðist hún því hafa dáið á undan henni.
Heimildir